Styrkur til rannsókna er tengjast taugastjórnun gervilima
Nærri 120 milljónir til rannsókna er tengjast taugastjórnun gervilima
Þrír styrkir til rannsókna, sem allar tengjast taugastjórnun gervilima, hafa verið veittir úr Rannsóknarsjóði Össurar og Ottobock við Háskóla Íslands. Samanlögð upphæð styrkjanna er 117 milljónir króna en þetta er í fyrsta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.
Stoðtækjafyrirtækin Össur hf. og Ottobock tóku höndum saman fyrir nokkrum árum og settu sjóðinn á fót við Háskóla Íslands. Honum er ætlað að styðja vísindarannsóknir og frumkvöðlaverkefni á sviði háþróaðrar taugastjórnunar á gervilimum. Auglýst var eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum á síðasta ári og alls bárust níu umsóknir. Stjórn sjóðsins ákvað á endanum að styrkja þrjú verkefni, samtals að upphæð 850.000 bandaríkjadala sem samsvarar um 117 milljónum króna.